154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[16:35]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég get einungis svarað fyrir mig og mínar skoðanir í þessum efnum. Þegar ég renndi yfir frumvarpið þá var þetta atriði, breytingin úr tímabundnu leyfi yfir í ótímabundið, ekki aðalatriðið og ég held að það sé ástæða til þess að fara vel yfir það hvaða þýðingu það hefur í raun og veru. Það er ekki verið að afhenda neinar auðlindir varanlega út í hið óendanlega. Það er ekki þannig. Hér er einfaldlega kveðið á um rekstrarleyfi og það gildir meðan lög eru uppfyllt hvort sem það eru þá 16 ár tímabundið en framlengt nokkuð örugglega að uppfylltum tilteknum skilyrðum eða að það gildi meðan skilyrði eru uppfyllt. Ég sé ekki alveg stóra ágreiningsefnið um þetta tiltekna atriði en þetta hefur augljóslega kveikt einhverjar pólitískar taugar hjá ýmsum þingmönnum og það er þá bara ágætt að ræða það og að það sé tekið fyrir í atvinnuveganefnd. Ég held að aðalatriðið sé að skoða hvort þau skilyrði sem verið er að setja í frumvarpið um að hægt sé að afturkalla það leyfi séu of ströng, sem þau eru að mínu mati og ég hef áhyggjur af því að þau gangi of langt og veiti ráðherra og stjórnvöldum of ríka heimild til að afturkalla leyfi án þess að fyrir því séu nægilega traustar og málefnalegar ástæður. Það er atriði sem ég tel að hv. atvinnuveganefnd þurfi að skoða vandlega.